Hleð Viðburðir
  • This event has passed.

Miðvikudaginn 17. maí kl. 17 lesa fjórir höfundar úr verkum sínum á Kaffislipp á Hotel Reykjavík Marina og spjalla við gesti. Þetta eru þau Ewa Marcinek (Pólland/Ísland), Elías Knörr (Galisía/Ísland), Mazen Maarouf (Líbanon/Ísland) og Roxana Crisologo (Perú/Finnland). Öll eiga þau það sameiginlegt að skrifa á öðru máli en því sem er ríkjandi í landinu sem þau búa í, eða á fleiri málum en einu.

Dagskráin er skipulögð af Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og NolitchX verkefninu (Nordic Literatures in Change and Exchange), sem miðar að því að vekja athygli á og skapa umræðu um bókmenntir innflytjenda á Norðurlöndum.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Ewa Marcinek er pólskur rithöfundur og skáld sem hefur búið í Reykjavík í þrjú ár. Í textum sínum leikur Ewa sér með ólík tungumál, togstreitu milli félagslegra og einkalegra sjálfsmynda, persónulegar sögur og minningar. Hún stundar nú nám við Myndlistarskólann í Reykjavík. Ewa er einn af stofnendum Ós pressunnar, samfélags jaðarhöfunda í Reykjavík, og hefur birt og flutt skáldskap á þeim vettvangi og víðar. Saga eftir hana birtist í Tímarits Máls og menningar haustið 2016. Ewa hefur kynnt pólska kvikmyndalist á Íslandi og tekið þátt í öðru skapandi starfi frá því að hún flutti til landsins.

Elías Knörr yrkir í anda kreasjónismans, heyjar sér orðamöguleika og skyggnist eftir nýjum röddum. Á íslensku hefur hann birt ljóðabækurnar Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum (Stella 2010) og Greitt í liljum (Partus 2016), sem hafa vakið mikla athygli og fengið frábæra dóma. Hann hefur einnig gefið út þrjár ljóðabækur á galisísku og hlotið stærstu ljóðaverðlaun móðurlands síns fyrir þá þriðju, Bazar de traidores (Svikarabasar), árið 2014. Einstök kvæði eftir Elías hafa einnig birst í kvæðasöfnum bæði hérlendis og erlendis.

Mazen Maarouf er af palestínskum uppruna en fæddur og alinn upp í Líbanon. Hann var fyrsta skjólborgarskáld Reykjavíkur á vegum ICORN samtakanna (International Cities of Refuge Network) og er nú íslenskur ríkisborgari. Mazen skrifar ljóð og prósa auk greina um bókmenntir, menningu og samfélagsmál og hann hefur einnig þýtt verk íslenskra höfunda á arabísku. Á íslensku hefur komið út ljóðabók hans Ekkert nema strokleður (Dimma, 2013) auk þess sem ljóð eftir hann hafa birst í tímaritinu Stínu.

Roxana Crisólogo Correa er ljóðskáld og aktívisti. Auk eigin ljóðabóka er hún einn ritsjóra safnrits með spænskum þýðingum á ljóðum eftir ung finnsk skáld, Los ratones de bolsillo terminan bien. Roxana hefur tekið þátt í ýmsum alþjóðlegum bókmenntahátíðum og textar eftir hana hafa birst í blöðum og tímaritum. Ljóð eftir Roxönu hafa verið þýdd á dönsku, ensku, finnsku, þýsku, ítölsku, sænsku og nú síðast á íslensku. Roxana er upphafskona fjöltyngda bókmenntaverkefnisins Sivuvalo í Helsinki og stýrir því.